Björgvin Gíslason
 

Við heimkomuna fór Björgvin í vinnu á Barðaströnd (segist hafa verið sendur í sveit) og spilaði lítið þetta sumar. Fór þó til Reykjavíkur og spilaði á uppákomu í Þjóðleikhúsinu með Karli Sighvatssyni og fleirum. Man ekki hvað þetta var – nema að Shady Owens söng. Þetta sama sumar urðu íslenskir hljómlistarmenn fyrir þungu áfralli: Rafn Haraldsson trommuleikari, fyrsti trommari Náttúru, fórst í flugslysi ásamt nokkrum öðrum.

100 tímar í Hljóðrita

Á Barðaströndinni kláraði hann að semja músík fyrir sólóplötuna Glettur sem var hljóðrituð í Hljóðrita í Hafnarfirði þá um haustið. Myron Dove bassaleikari kom til landsins til að aðstoða en upptökur gengu hratt og vel fyrir sig – enda setti útgefandinn það skilyrði að upptakan tæki ekki nema 100 tíma.

Ég var reyndar svolítið hissa á að Steinar skyldu vilja gefa þetta út því ég var áður búinn að fá afsvar frá öðrum útgefendum og var orðinn vonlítill um að einhver vildi gefa þetta út. Ég bað um þessa hundrað tíma sem þótti óheyrilega mikið. Veistu ekki að pönkböndin taka heilu plöturnar upp á 8-9 tímum? var mér sagt.

Þegar ég heyrði Purrk Pillnik fyrst í útvarpinu lá við að ég henti gítarnum út um gluggann. Mikið svakalega eldist þessi tónlist vel – Purrkurinn, Þeyr, Kukl og fleiri. Nema hvað, um svipað leiti og Glettur kom út var hljómsveitin Fryðryk að gefa út sína fyrstu og plötu. Við ákváðum að kynna plöturnar saman og fórum í marga framhaldsskóla með konserta sem gengu ágætlega. Ég var annars mikið í hljóðveri á þessum tíma, var til dæmis upptökustjóri við gerð plötunnar Hrökkbrauð með Óla Þórðar úr Ríó. Önnur plata var Samkvæmt læknisráði sem ég vann með Jónasi R. Og Magnúsi Kjartanssyni – og loks var það þriðja sólóplatan, Örugglega, sem ég vann þennan vetur.

Ég fékk gamla og þaulreynda félaga mína með mér til að gera Örugglega - Ásgeir Óskarsson og Pétur Hjaltested og svo Bjartmar Guðlaugsson sem gerði alla textana. Bjartmar var með okkur í stúdíóinu og samdi textana jafnóðum – eða næstum því. Einn texta var hann varla búinn með þegar ung söngkona mætti klukkan tvö einn daginn. Þetta var Björk Guðmundsdóttir, sirka sextán ára, sem kom og söng lagið Afi. Hún var snögg. Hafði aldrei heyrt lagið en lærði það eins og skot, raddaði við sjálfa sig í endakaflanum og var farin klukkan fjögur. Geri aðrir betur! Ef ég man rétt kom Örugglega út vorið 1983.

Næstu misseri og ár voru stofnaðar margar hljómsveitir sem fæstar lifðu lengi en voru okkar manni þeim mun skemmtilegri upplifun. Deild eitt var hljómsveit sem var stofnuð þarna um sumarið með Björgvin, Richard Korn bassaleikara, Sigurgeir Sigmunds gítarista,Magnúsi Stefánssyni trommuleikara og Eiríki Haukssyni söngvara. Deild eitt spilaði í Þjórsárdal um verslunarmannahelgina 1983 en annars lítið.

Frakkarnir var annað skemmtilegt band sem Geiri og Björgvin komu inní í miðri plötu. 1984 hét platan – flott plata sem fór ekki hátt, segir hann frá. Frakkarnir voru einskonar underground band í Reykjavík um all langt skeið. Þarna voru Þorleifur Guðjónsson bassaleikari, Gunnar Erlingsson trommari, Ásgeir Óskarsson á trommur og Björgvin á gítar. Tveir söngvarar voru með – Michael Pollock og Finnur Jóhannsson sem hafði sungið með hljómsveitinni Cabaret á árum áður (og hafnað tilboði um að verða söngvari Pelican eftir Pétur Kristjánsson). Einskonar hliðarband Frakkanna var Þrír á palli sem voru Gunnar, Þorleifur, Ásgeir Óskarsson á gítar (enda hörku gítaristi!) og Björgvin. Í annarri útgáfu Þriggja á palli var Ólafía Hrönn Jónsdóttir (Lolla) söngkona og stundum var með ljóðskáld sem kyrjaði, Kristján Frímann Kristjánsson draumamaður.

Ævintýr með Megasi

Á þessum árum spilaði ég talsvert með Megasi. Þarna voru líka Jens Hansson saxófónleikari, Halli Þorseins á bassa, Geiri Óskars á trommur og Pétur Stefáns á gítar. Þannig var bandið skipað á frægum tónleikum í Austurbæjarbíói.  Við Jenni, Geiri og Halli fórum síðar á túr um landið með Megasi – skemmtilegasta túr sem ég hef farið í. Meistari Megas þekkti hverja þúfu og sagði sögur allan tímann. Mikið ævintýr.


Annars á ég erfitt með að muna þetta í smáatriðum eftir því sem dregur nær samtímanum. Ég man þó eftir Hryllingsbandinu sem spilaði við uppsetningu Hryllingsbúðarinnar í Gamla bíói – þar voru, Pétur Hjalt, Geiri, Halli og ég. Hryllingsbúiðin var sýnd meira en hundrað sinnum og það var alltaf jafn gaman. Það var líka gerð plata með þessari músík sem gerði sig ágætlega. Svo fór ég á síld vestur í bæ – spilaði með bandinu í söngleiknum Síldin kemur, síldin fer, músík eftir Valgeir Guðjónsson. Þetta voru líka margar sýningar. Þræl skemmtilegt og sýnt á réttum stað, í gömlu fiskverkunarhúsi vestur í bæ með með lykt og öllu. Þar sá ég Lollu fyrst. Þvílíkur talent!


Aukinn þrýstingur hét enn ein hljómsveitin sem lifði stuttt, var hljómsveit húsins í Þórscafé. Þarna vorum við Geiri, Tommi Tomm á bassa, Björn Jörundur á bassa og Björn Þórisson á hljómborð. Svo var ég með Mannakornum um tíma með Jenna sax og Sigga Reynis trommuleikara, ásamt Pálma Gunnars og Magga Eiríks. Við vorum í Þórscafé, Sjallanum og víðar. Mannakorn er band sem getur haldið áfram endalaust.


Gömlu brýnin var árshátíðarband sem Svenni Guðjóns úr Roof Tops stofnaði með Halla Olgeirs og Sigga Björgvins. Þetta band var ekkert nema galdrar. Kannski ekki bestu hljóðfæraleikar í heimi en bandið dugði vel til sína brúks – árshátíðir, köld Þorrablót og næturbjört vor. Seinna kom Jonni Ólafs í staðinn fyrir Sigga Björgvins.

Frakkarnir:

Gunni Erlings,Mikki Pollokk,Þorleifur,BG

Þrír á palli:Þorleifur,Lolla,BG,Gunni Erlings

Á Dalvík kom einn

En ekki þótti fullreynt með Pelican sem hafði notið mikilla vinsælda uppúr 1970. Úr varð að bandið var sett saman á ný og nú með Guðmundi Jónssyni gítarista úr Sálinni sem átti flest lög á plötu sem gerð var. Úr þessu kom einn minniháttar smellur, Ástin er, eftir Gumma. Fullir bjartsýni fóru Pelicanmenn fór í tónleikaferð um landið þetta sumar – en aðdáendurnir létu á sér standa.

Það var farið víða en Dalvík sló öll met. Þar kom EINN. Við reyndum að fá hann til að borga sig þrjúhundruð og fimmtíu sinnum inn til að þetta borgaði sig. En það gekk ekki.

Haustið 1993 slóst Björgvin í lið með KK-bandi Kristjáns Kristjánssonar. Verið var að undirbúa nýja plötu en það dróst og dróst. Á meðan beðið var var farið á jazz- og blúsfestival í Færeyjum og búið á Hotel Föroyar í hálfan mánuð við að semja músík á plötuna. Það gekk allt frekar rólega. Síðar þetta sama haust fór KK bandið til Wales til að taka upp.

Það voru langir dagar, langar vikur og margir göngutúrar niður með ánni Usk eða Afon Wysg, eins og hún heitir á velsku. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki alltaf í góðu skapi. Það fór ekki vel á með okkur Kristjáni. Þetta var eiginlega endurtekning á Das Kapital-ævintýrinu með Bubba; við Ásbjörn Kristinsson áttum heldur ekki skap saman. KK-platan kom svo út og það var farið í hefðbundna ferð um landið. Það eftirminnilegasta var í Króksfjarðarnesi. Þar kom til mín fullorðin kona og hrósaði mér fyrir fallegan tón í gítarnum. Það eru nú svona litlir hlutir sem oft ylja manni í  minningunni. Seint um haustið hrökklaðist ég úr bandinu enda Kristján farinn að tala um að hann vildi leggja það niður. Eftir á að hyggja var ég alltaf hálf einmana í þessari hljómsveit.

Í dimmu og éljagangi með Stefáni P

Eftir þetta fór Björgvin að spila með Hljómsveit Stefáns P – þriggja manna bandi sem gerði út á árshátíðir og þorrablót um allt land. Stefán er atvinnuflugmaður (flýgur nú stórum þotum austur í Asíu) og flaug með hljómsveit sína landshorna á milli. Þar læknaðist Björgvin af flughræðslunni sem hafði þjakað lann lengi.

Stefán er mikill ljúflingur og fagmaður fram í fingurgóma. Ég fékk yfirleitt að sitja frammí hjá honum og jafnvel taka í tækin öðru hverju. Nú flýg ég í flughermi um allar heimsins trissur að heiman í Meðalholtinu. Einhverju sinni vorum við að fara á Bíldudal. Veðrið var frekar dapurt, éljagangur og dimmt yfir Djúpinu. Eftir smávægilegt hringsól tókst að lenda og við spiluðum í samkomuhúsinu um kvöldið. Morguninn eftir var flugvélin á kafi í snjó. Við hreinsuðum af henni og svo var tekið á loft. Ég sat frammí hjá Stefáni kafteini. En við erum ekki nema rétt komnir upp á heiðina þegar mikil hitalykt gaus upp – eins og eitthvað væri að brenna.

Hvaða lykt er þetta? spurði ég Stefán – og hann svaraði akkúrat eins og á ekki að gefa flughræddum gítarleikara með kúkinn í buxunum: Ég var einmitt að pæla í því.

Þá missti ég það!

   Það kom svo í ljós að það hafði gleymst að hreinsa frá loftinntakinu fyrir miðstöðina sem    

   var ekki stóralvarlegt – en við flugum í bæinn í 20 stiga gaddi.

Fyrsta giggið tíu ár í röð

Sumar hljómsveitir verða til og deyja fljótlega án þess að ná nokkru sinni þroska. Aðrar virðast lifa út í hið óendanlega. Þannig er til að mynda með Pops sem lifnar við á hverju ári – lengst af þeir Björgvin og Pétur Kristjáns ásamt Birgi Hrafnssyni, Óla Sig, Jonna Ólafs og Óttari Felix Haukssyni.

Pétur hóaði okkur einu sinni saman til að spila á Hótel Sögu á nýárskvöld þar sem hin svokallaða ’68-kynslóð kom saman. Við spiluðum þarna svo tíu ár í röð. Það var eins og að endurtaka fyrsta giggið ár eftir ár, tíu sinnum. Eftir að Pétur dó hef ég ekki viljað vera með í þessu.


En nú er ég kominn svo nálægt nútímanum að ég man ekkert. Ég fór að mála um tíma tl að gera eitthvað en svo...jú, nú man ég: við stofnuðum Bláa fiðringinn. Allir í þeirri hljómsveit nema ég hétu Jón. Jón Ingólfs og Jón Björgvins. Við vorum bara þrír en þetta svínvirkaði. Blái fiðringurinn var eitt af þessum galdraböndum þar sem allt gengur upp. Við spiluðum saman í nokkur ár en einn daginn var ég bara búinn að fá nóg. Lagði frá mér gítarinn og hætti. Hætti alveg. Kom ekki við hljóðfæri í rúmt ár eða þangað til...ah, nú man ég það ekki.


Jú, annars, ég man að þegar ég varð fimmtugur gerði ég plötu. Þetta átti að verða svona afslöppunarplata og varð það. Þykir góð fyrir próflestur. Ég gerði svo aðra rokkplötu 2002 sem fór lágt. Um aldamótin gerði ég svo fína plötu með Ólínu vinkonu minni á Hellnum og svo aðra 2003 – sem er loksins að koma út. Það er plata sem ég er mjög montinn af. Ég hef reyndar verið að vinna mikið með Kela vini mínum vestur á Snæfellsnesi – sjálfsagt búinn að gera einar 10 eða 12 plötur með honum. Og svo verð ég alltaf glaður þegar ég fæ upphringingu frá Súðavík og er beðinn um tóninn. Það er þá auðvitað Öddi Mugison. Að spila með þeim snillingi er öngvu líkt – fílingsmaður út yfir allan raunveruleika. Við eigum sama afmælisdag. Toppmaður, Mugison

Lifandi og þakklátur

Síðustu árin hefur Björgvin Gíslason mest verið í hljóði. Var um tíma hljóðmaður í Þjóðleikhúsinu og hefur komið víða við til að hanna hljóð og stjórna tökkum. Mestur tími hefur þó farið í gítarkennslu heima í stofu – kenna ungum og gömlum eitthvað af því sem hann kann á gítar. Bæði skemmtilegt og gefandi, segir hann, og ekki síður að spila með nemendunum þegar þeir þurfa á því að halda

Ég er örugglega að gleyma einhverju – en svona er þetta bara. Ég má vera heppinn að hafa sloppið lifandi frá þessu öllu og er ævinlega þakklátur. Þetta hefur allt verið heldur gaman.

Á tröppum Potala hallarinnar í Lhasa Týbet

              Rafn Haraldsson

    4. ágúst 1947 - 27. maí 1981

             Karl Sighvatsson

8. september 1950 - 2. júní 1991

              Pétur Kristjánsson

7. janúar 1952 - 3. september 2004

Heimasíða þessi er endurskrifuð og stílfærð af vini mínum Ómari Valdimarssyni.

Ævinlegar þakkir.